Erindi

Varla þarfnast það réttlætingar að búa sér til eigin vefsíðu til að skrifa um það sem hugurinn girnist. Í byrjun þessarar aldar var það útbreiddur móður að blogga. Hefur það vikið fyrir Facebook og Twitter hin síðari ár. Hver sem er býr sér til sitt eigið málgagn og blandar sér í opinbera umræðu að vild. Að rökstyðja tilverurétt vefsíðu sem þessarar er álíka vitlaust og halda uppi beinskeyttum vörnum fyrir því að draga andann.

Ég hef kosið að láta þennan vef minn heita ΔΟΞΑ (DOXA) sem er komið úr grísku. Þetta er í aðra röndina hégómi – það þykir stundum fínt að slá um sig með grísku eða latínu þó maður skilji ekki þessi aldagömlu tungumál spekinga fyrri alda. En nafngiftin er á hinn bóginn hlutlaust að því leyti að það vísar ekki á neitt sérstakt viðfangsefni. Þó ég hafi vissulega pólitískar meiningar þá kem ég vísast til með að skrifa um ýmislegt annað.

Eins og lesendur taka fljótlega eftir gef ég engin færi á athugasemdum. Það kemur til af fyrri reynslu. Alls konar nettröll sem eiga erfitt með að hemja sig fara gjarnan með umræðuna út í móa í slíkum athugasemdum og aðrir fá lítinn frið. Fólki er frjálst að deila hér hverju sem er á sínu eigin netsvæði sem það ber sjálft ábyrgð á og hagað skrifum eftir eigin höfði – hvort sem það er nú að hirta mig eða hafa uppi aðrar ræður.