Að ganga í smiðju Wittgensteins

Skrafað aftur og fram í tilefni íslenskrar útgáfu Philosophische Untersuchungen/Philosophical Investigations

Þann 6. ágúst[1] gerði ég mér ferð í Bóksölu Stúdenta þriðja daginn í röð. Ég hafði frétt að höfuðverk Wittgensteins væri nú komið úr prentun og ætti að vera á boðstólum. Nú sagði verslunarmaður: „Jú, hún er komin og er hér inná lager. En því miður… bókin er bara ekki komin inn í kerfið hjá okkur.“ Mér átti að skiljast á föstudegi að ég mætti bíða enn í einhverja daga eftir bókinni – þar til hún væri tæk til vélrænnar meðferðar við afgreiðsluborð. Eins og ég hefði ekki beðið nógu lengi – mér var lofað henni af þýðandanum til jólalesturs! Næstum heill meðgöngutími liðinn! Ég setti upp svip sem átti að vera staðgengill þess að ég fleygði mér í gólfið organdi eins og frekur krakki. En þó margræður svipur. Með ábúðarmiklum talsmáta hins gamla manns sem sopið hefur marga fjöruna sagði ég sisona: „Ja… ég fer nú ekki bókarlaus heim vinur minn. Geturðu ekki bjargað þessu?“ Einhver virðing er enn borin fyrir gamalmennum. Ég gekk heim með bókina og hóf þegar lesturinn. Ekki gerist það oft (ef þá nokkurn tímann) á ævinni að maður geti iljað hégómagirndina við að hafa verið fyrstur til einhvers. Ég varð líkast til fyrstur til að kaupa íslenska þýðingu Rannsókna í heimspeki eftir Ludwig Wittgenstein. Og líklega náði enginn kaupandi bókarinnar að lesa hana á undan mér. Hver gengur sína leið í barndóm á gamals aldri!

Ég hef ekki hugsað mér að skrifa hér ritdóm um íslensku þýðinguna og því síður að gera grein fyrir heimspeki Wittgensteins. Skrif hans eru ekki auðveld lesning. Reyndar með afbrigðum erfið lesning. Fyrir því liggja vísast margvíslegar ástæður hjá hverjum og einum lesanda. En skýringanna má einnig leita í höfundarverkinu sjálfu. Það kann að vera gagnlegt að skrafa eilítið um hvers vegna Wittgenstein reynist mörgum vera torræður eða torskilinn höfundur með þær spurningar í bakgrunni vitaskuld hvers vegna við ættum að leggja eitthvað á okkur til að skilja hann. Því það er vinna. Ég vona að mér fyrirgefist að setja slíkt hjal í ævisögulegt samhengi (sjálfum mér til skemmtunar).

Hvað á barnið að heita?

Á leið minni heim úr Bóksölu stúdenta lét ég það ónáða mig hvernig sjálfur bókartitillinn var íslenskaður. Bókin heitir á frummálinu Philosophische Untersuchungen og á enskunni Philosophical Investigations. Við vitum að Wittgenstein vildi hafa þetta svona. (Baker & Hacker, 2009b) Hann velti fyrir sér titlinum og tvísteig nokkuð – en þetta var lokaniðurstaðan.

Á íslensku er titillinn Rannsóknir í heimspeki hjá Jóhanni Haukssyni (Wittgenstein, 2021). Þessi íslenskun er vísast fengin frá Þorsteini Gylfasyni. Hann íslenskar titilinn á þennan hátt á fleiri en einum stað þegar hann minnist á þessa bók Wittgensteins. Untersuchungen á þýsku og Investigations á ensku eru óumdeilanlega rannsóknir á íslensku. Auðvitað koma fleiri íslensk orð til greina en allt kemur þar í einn stað. Rannsóknir eru réttnefni. Spurningin er þessi: Fer vel á því að íslenska Philosophische Untersuchungen eða Philosophical Investigations með Rannsóknir í heimspeki?

Við getum vísast leikið okkur að því að ræða aftur og fram um skilninginn á því „að vera í“ en það ætla ég ekki að gera. Þegar við tölum um rannsóknir í eðlisfræði, efnafræði, líffræði, læknisfræði o.s.frv. erum við að tala um rannsóknir á fræðasviði þar sem við göngum að samræmdu hugtakakerfi, samstöðu um tækar skýringar, almennt viðurkenndar rannsóknaraðferðir og þar fram eftir götum. Því er enginn munur á því út af fyrir sig að tala um rannsóknir í efnafræði eða efnafræðilegar rannsóknir.

Nú verðum við að spyrja: Viðurkenndi Wittgenstein það sem kallaðist og kallast enn „heimspeki“ sem viðtekin fræði eða stofnun sem iðja hans gæti verið í eftir sama skilningi og kollegar hans í Cambridge voru í efnafræði, eðlifræði, læknisfræði o.sv.frv? Ég er hræddur um ekki. Okkur er skylt að mínu viti að taka þessa athugasemd mjög alvarlega sem Wittgensteins skrifaði hjá sér 1929:

Mér finnst sjálfum að háttur minn á að stunda heimspeki sé nýlunda, & lýstur mig stöðugt að nýju, & þess vegna þarf ég að endurtaka mig svo oft. Hún mun renna nýrri kynslóð í merg og bein & henni mun finnast endurtekningarnar leiðigjarnar. Fyrir mér eru þær nauðsynlegar. – Þessi aðferð felst aðallega í að hverfa frá spurningunni um sannleika (truth) og spyrja þess í stað um vit (sense). [2]  CV bls. 3

Heimspeki allar götur í aldanna rás leitaði að sannleika í einhverjum skilningi – þekkingu. Hún var og er í viðteknum skilningi þekkingargrein. Wittgenstein hverfur frá þessu og spyr ekki hvort það sé satt sem við teljum okkur vita eða hver leyndardómur tilverunnar sé heldur hvort það sé vit í því sem við segjum – hvort það sé skiljanlegt mönnum. Í þessu sambandi má vitna í beinskeytta ábendingu Bennett & Hacker (2003) um greinarmuninn á vísindum og heimspeki: Vísindin gera greinarmun á því sem er satt og ósatt en heimspekin hefur það verkefni að greina milli vits og vitleysu – því skiljanlega og óskiljanlega. Þetta verkefni heimspekinnar verður auðvitað ekki leyst með empirískum rannsóknaraðferðum vísindanna.

Með öðrum orðum – skilningur Wittgensteins á heimspekinni sem hann var að stunda var í eðli sínu annar en sá sem viðtekin er hjá heimspekingum. Hann er ekki að stunda athuganir eða rannsóknir í sama fræðilega rýminu ef svo má segja og eftir sömu brautum og gerist og gengur í þeirri fræðigrein eða stofnun sem kallast heimspeki. Í þeim skilningi eru rannsóknir hans ekki í heimspeki.

Wittgenstein sjálfur velti því fyrir sér hvað bók hans ætti að heita og má af því draga ályktanir í þessu sambandi. Hacker telur upp þá möguleika sem komu til álita (Baker & Hacker, 2009b):

  • Eine Philosophische Betractung eða Heimspekileg íhugun
  • Philosophische Bemerkungen eða Heimspekilegar athugasemdir
  • Bemerkungen zur Philosophie eða Athugasemdir um heimspeki
  • Bemerkungen zur Philosophischen Grammatik eða Athugasemdir um heimspekilega málfræði (grammatik)
  • Philosophical Remarks (í viðræðum við enskt forlag) eða Heimspekilegar athugasemdir
  • Philosophical Investigations (í viðræðum við enskt forlag) eða Heimspekilegar rannsóknir

(Á þessum lista er ekki að finna Untersuchungen in der Philosophie eða Investigations in Philosophy sem merkir bókstaflega Rannsóknir í heimspeki.)

Wittgenstein leit greinilega svo á að það sem hann stundaði væri heimspekilegt en ekki að það væri heimspeki eins og hún hafði verið stunduð fyrr og síðar. Bókartitillinn „Athugasemdir um heimspeki“ sem kom til álita er einmitt merki þess að Wittgenstein staðsetti sig utan en ekki inní heimspekinni. En það sem hann fékkst við var vissulega heimspekilegt, heimspekilíkt eða fjallaði um það sem heimspekingarnir ýmist glímdu við eða létu glepja sig. Tillaga mín er því sú að bókin góða heiti á íslensku Heimspekilegar rannsóknir.

Villuráf æskuára minna

Mér er til efs að nokkur leggi það á sig að ganga í smiðju Ludwig Wittgensteins í leit að hugmyndum, leiðsögn eða hvers kyns speki nema finna sig virkilega knúinn til þess að brjótast út úr einhvers konar villuráfi sem veldur óþægindum ef ekki sálarkvölum. Ég fékk snemma áhuga á heimspeki vegna þess að ungur lifði ég og hrærðist í umræðum og skoðanaskiptum um marxisma sem þá gekk í endurnýjun lífdaga í hreyfingu æskufólks á sjöunda og áttunda áratug hinnar tuttugustu aldar. Á þessum mótunarárum mínum átti ég ekki í þess konar sálarstríði sem gat laðað mig að Wittgenstein.

Fyrstu kynni mín af einhverju sem mögulegt er að tengja við Ludwig Wittgenstein höfðu skelfilegar afleiðingar (svona eftir á að hyggja). Þau fékk ég í bók Þorsteins Gylfasonar Tilraun um manninn sem kom út 1970. (Þorsteinn Gylfason, 1970) Það fór illa í unga marxistann að öll þýsk heimspekihefð var afgreidd með gífuryrðum og innistæðulausum einkunnagjöfum. Það fjas gat enginn tekið alvarlega nema fáfræði kæmi til. Og hér var maður sem var á vegum hinnar engil-saxnesku heimspekihefðar og ný-positivismans (þannig skildi ég það). Þessir fyrirlestrar Þorsteins – hins unga ofurhuga – urðu ekki til þess að vekja áhuga á Gilbert Ryle og Ludwig Wittgenstein þó það hafi vísast verið ætlun hans. Öll engil-saxnesk heimspeki var í augum okkar ungu marxistanna ekkert nema borgaralegt íhald og tálsýnir. Eitt af því sem stuðlaði að þessum vafasama sleggjudóm voru sjónarmið þeirra marxista á Bretlandseyjum sem gáfu út New Left Review – einu virtasta fræðilega tímariti á marxískri grein á þessum ungdómsárum mínum. Aðstandendur þessa tímarits gáfu ekki mikið fyrir borgaralega enska menningu og menntalíf yfirleitt. Ég get ekki sagt að þetta hafi verið góður skóli.

Líða nú mörg ár á mælikvarða ungmennis um tvítugt. Þegar ég streðaði við háskólanám í félagsfræði og hugmynda- og lærdómssögu í Lundi seint á áttunda áratug síðustu aldar var heit og átakamikil umræða á vettvangi mannfélagsfræða um vísindi – hvað þau væru, gildi þeirra og aðferðir og þar fram eftir götunum. Ekki síst þótti þetta sáluhjálparatriði vegna þess að þeir marxistar sem létu mest að sér kveða í akademíunni þar í landi hölluðu sér gjarnan að Louis Althusser. En eins og allir eiga að vita var hann andófsmaður gegn húmanískum skilningi á marxisma, fjandmaður hegelíana og talsmaður einhvers konar hlutlægra vísinda. Samhliða þessu var positivismi, ný-positivismi eða röklegur positivismi hitamál í umræðunni ásamt vísindaheimspekilegum bókmenntum sem þá voru mjög í tísku – það er að segja Thomas Kuhn, Imre Lakatos, Paul Feyerabend að ógleymdum Karli Popper.

Í þessum skarkala hafði ég ekki dvalið lengi þegar ég fékk þá flugu í höfuðið að ég þyrfti að lesa Wittgenstein. Uppúr bókakassa sem ég hafði með mér að heiman gróf ég upp bók eftir Maurice Cornforth sem hét In Defence of Philosophy sem var gagnrýni á positivisma og pragmatisma (Cornforth, 1950). Tengdafaðir minn hafði gefið mér þessa bók þegar hann áttaði sig á að ég hafði áhuga á heimspeki. Cornforth þessi var Brynjólfur Bjarnason þeirra Breta – heimspekingur Breska Kommúnistaflokksins. Að lestri loknum keypti ég Tractatus Logico Pilosophicus (Wittgenstein, 2001). Skemmst er frá því að segja að ég skildi ekki eina einustu setningu! Ekki eina. Enga. Ég gat ekki einu sinni áttað mig á því um hvað bókin fjallaði. Það sem meira var. Ég gat ekki með nokkru móti komið þeirri gagnrýni sem ég hafði lesið heim og saman við bókina sem ég var með í höndunum. Gat ekki fundið, lesið og skilið hið gagnrýnisverða! Ég gafst upp og sneri mér að öðru. Ég lærði þó eitt gagnlegt af þessum leiðangri. Það var ekki nóg með að sjálfur botnaði ég ekkert í þessu riti – mig grunaði líka sterklega að þeir sem um hana fjölluðu skildu ekkert heldur og voru marxistarnir ekki undanskildir. Ég hafði náð nægum þroska til að neita mér um að móta mér skoðanir og hafa í frammi yfirlýsingar í partíum þar sem siður var að tala gáfulega og þykjast vera eitthvað.

Það segir alla sögu um ástandið í umræðunni í kringum mig eða einangrun og fáfræði mína að ég vissi ekki að Wittgenstein hefði sett fram allt aðra heimspeki síðar í Heimspekilegum rannsóknum. Á þessu er líklega einföld skýring þegar að er gáð. Þegar ég kom til Svíþjóðar 1978 keypti ég heimspekisögu í tveimur bindum eftir Gunnar Aspelin sem skólafélagar mínir mæltu með. Saga þessi hafði komið út 1958 og nýlega endurprentuð þegar þetta var (Aspelin, 1958/1977). Aspelin fjallar suttlega um Wittgenstein og litlu bókina hans frá 1921 einmitt í tengslum við Vínarhringinn og positivismann. Og þar við sat. Sömu sögu er að segja um litla bók sem hét Positivism, marxism, kritisk teori (Johansson, Kalleberg, & Liedman, 1976). Kver þetta var skyldulesning. Athugasemd Johanssons um Wittgenstein hinn síðari í kaflanum um engil-saxneska vísindaheimspeki varð ekki til þess að vekja neinn áhuga. Þau viðfangsefni sem tóku huga minn allan smám saman voru líka í órafjarlægð frá viðfangsefnum Wittgensteins. Annars vegar að finna einhvern botn í Das Kapital eftir Karl Marx og eðli kapítalismans, kenningu marxista um ríkið, þrefa um Evrópukommúnismann og þar fram eftir götum.[3]

Villuráf í sálfræðinni

Nú leið tíminn. Þegar ég var fertugur datt mér í hug að læra sálfræði og skráði mig aftur í háskóla. Öll þrjú árin í grunnnámi var ég að reyna að átta mig á hvað sálfræði væri eiginlega og komst aldrei að niðurstöðu um það. Ég fékk tveggja ára fræðilega hvíld áður en ég fór í framhaldsnám. Nú verður að hafa í huga að þegar ég byrjaði að læra sálfræði hafði ég nokkra ást á heimspeki eins og ráða má af framansögðu og sterka hneigð til að hyggja að forsendum alls þess sem haldið var fram. Framan af var draugur tvíhyggjunnar alltaf á sveimi – ýmist sýnilegur eða ósýnilegur fíll sem ráfaði um postulínsbúð hinna viðteknu sálarfræða – inní goðsögunni um vísindagreinina með samræmda hugtaka- og skýringakerfið og sívaxandi þekkingarforðann. Þegar í framhaldsnámið var komið reyndi á praktíska sálfræði. Ég lét mér detta í hug að læra sálfræði einmitt vegna þess að ég ánetjaðist hugrænni meðferð sem kennd  er við Aaron T. Beck. Nú urðu ýmsar spurningar áleitnar. Hvers konar skýringar felast í hinni hugrænu kenningu, hverrar tegundar eru þær og hvers eðlis eru hugtök hennar? Við blasti að það er auðvitað tvenns konar sálfræði. Sálfræðin sem telur sér trú um að hún sé vísindi af alveg sama tagi og eðlislík efnavísindum sem fjalla um merkingarlausar verundir með öllu og keppa að því að uppgötva lögmál og vill ekki kannast við neinar tilgangsskýringar í mannheimum. Hins vegar sálfræði sem gerir ráð fyrir merkingarbærum athöfnum.

Jan Smedslund var einn þeirra sem tók á þessum vanda og reyndi að setja sálarhugtökin fram í röklegu frumsendukerfi (Smedslund, 1997). Þarna þóttist ég hafa fundið lausn á því sem boðberar hugrænnar kenningar og meðferðar virtust ekki vita af né skilja. Þeim virtist gersamlega hulið hvers konar hugtakakerfi þeir notuðu né heldur hvers konar skýringar fólust í sálfræði þeirra. En það var ekki aðeins hugtaka- og skýringakerfi hugrænnar kenningar og meðferðar sem kölluðu á heimspekilegar og fræðilegar vangaveltur og sálarstríð. Hugræn sálfræði (cognitive psychology) hafði verið lengi í mikilli tísku og alls konar hugarheimspeki henni tengd. Færðist þessi tíska mjög í aukana á mínum skólaárum í líki hinna hugfræðilegu taugavísinda (cognitive neuroscience) eða bara taugavísinda (neuroscience). Ég átti alltaf í mesta basli að koma þessu heim og saman á námsárum mínum.

Það var reyndar ekki fyrr en ég hafði lokið námi og farinn að kenna sjálfur sem mér opnaðist alveg ný sýn ekki bara á sálfræði heldur líka heimspeki. Ég kenndi ásamt Magnúsi Kristjánssyni námskeið sem hér „hugtakagreining í sálfræði“. Þar voru rit Jan Smedslund fyrirferðamikil. Mér tókst að setja sérstaklega á dagskrá efni um hugræna kenningu og meðferð sálmeina. Sem ég er að leita að góðu lesefni um tilfinningalífið rakst ég á grein eftir Peter Hacker sem mundi heita á íslensku „Hugtakalegur rammi fyrir rannsóknir á geðshræringum“ (Hacker, 2004). Mér fannst þessi grein stórmerkileg og grennslaðist fyrir um höfundinn og verk hans og fann mikla og áhugaverða bók sem Hacker skrifaði ásamt taugavísindamanninn M.R. Bennett og hét Philosophical Foundations of Neuroscience (Bennett & Hacker, 2003). Vandamál þessara hugfræðilegu taugavísinda hafði alltaf verið í mínum augum smættarhyggja og það sem af henni leiðir. En nú skildist mér jafnframt að hið raunverulega vandamál sem lá öllu til grundvallar var hugtakaruglingur. Það er ekki að sökum að spyrja um framhaldið. Ég fór að elta uppi vísbendingar, ábendingar og spurningar sem rit þetta fól í sér. Það leiddi til margvíslegra heimspekilegra skrifa Hackers bæði um sálfræðileg efni og annað. Þar með ánetjaðist ég Wittgenstein og loks botnaði þetta allt í því að leystist úr efasemdum mínum um Psykologik Smedslunds. Lykillinn að því að finna haus og sporð á sálfræði er að ganga í smiðju Ludwig Wittgensteins fremur en smíða röklegt kerfi formlega skilgreindra sálarhugtaka.

Þar sem ætlunarverk mitt hér er ekki að gera grein fyrir heimspeki Wittgensteins læt ég nægja að vitna hér til harðsoðinnar samantektar Hackers sem varpar ljósi á hvers vegna sálfræðingar ættu að hyggja að því sem Wittgenstein hefur fram að færa:

Gegn ríkjandi hefð reis Wittgenstein gegn innri/ytri myndinni af huganum, þeim skilningi að hið andlega væri sem „heimur“ aðgengilegur sjálfsverunni með innskoðun, þeim skilningi að innskoðun væri innri skynjun, þeirri hugmynd að geta okkar til að segja hvernig ástatt er „innra“ með okkur sé form þekkingar (hvað þá viðmiðunardæmi um sjálfsþekkingu), þeirri hugsun að mannleg hegðun sé „tómar líkamshreyfingar“, þeirri skoðun að viljandi gjörðir séu líkamshreyfingar sem athafnir viljans valdi, þeirri ætlan að skýringar á mannlegri hegðun með orðfæri ástæðna og hvata séu um orsakir, og hinum þrálátu áhrifum myndar Ágústínusar af tungumálinu sem glepur okkur til að halda að sálarhugtökin séu samskonar og jafnvel öllu jöfnu nöfn á innri hlutum, atburðum, ferlum og ástandi. Heimspeki hans um huga og athafnir má líta á sem gildar stoðir undir hina túlkunarfræðilegu sannfæringu um sjálfstæði hins húmaníska skilnings og skilyrðislausri aðgreiningu hans frá skilningi að hætti náttúruvísinda. (Hacker (2001) bls. 85)[4]

Höfuðrit og ritskýringar

Flestir stóru og nafntoguðu heimspekingar sögunnar eru tiltölulega aðgengilegir. Þeir skrifuðu bækur sem eftir þá liggja. René Descartes og Baruch Spinoza, John Locke og David Hume, Immanuel Kant og Georg Hegel skrifuðu bækur og hægðarleikur er að benda á höfuðverk þeirra. Sömu sögu má segja um marga aðra heimspekinga fyrr og síðar. Í seinni tíð hefur ritgerðin verið helsta tjáningarform höfunda á vegum greiningarheimspekinnar (analytic philosophy) og þar með ritgerðasöfn í bundnum bókum. Willard Quine, Donald Davidson og Hilary Putnam skrifuðu merkilegar ritgerðir á síðustu öld sem safnað var saman í bækur. Auðvitað eru undantekningar á þessu eins og Jerry Fodor og Daniel Dennett sem hafa gjarnan tjáð sig á bókum. Flestir heimspekingar sem hefð er fyrir að láta nemendur læra um í skólum eru aðgengilegir í þeim skilningi að höfundarverkið liggur fyrir og sæmileg sátt um höfuðritin. Sömu sögu má segja um heimspekinga síðustu sex til sjö áratuga.

Í annan stað liggja fyrir forspjallsbókmenntir um hina klassísku stóru heimspekinga sem mörkuðu greinileg spor á vegferð sinni. Með forspjallsbókmenntum á ég við yfirlit um heimspekilegar hugmyndir, heimspekisögulegt (og jafnvel samfélagssögulegt) samhengi og ritskýringar. Þegar stóru heimspekingarnir eiga í hlut eru slíkar bókmenntir meir og minna viðteknar. Skýringin á því er einföld: Hinir stóru heimspekingar hafa verið ræddir í þaula áratugum og jafnvel öldum saman kynslóð fram af kynslóð. Smám saman hefur myndast sameignlegur viðtekinn og næstum óumdeildur skilningur sem endurtekinn er um grundvallaratriðin hvað eftir annað í hverri bók á fætur annarri. Auðvitað eru yfirlitsrit um Hume og jafnvel Kant svo dæmi séu tekin misjöfn að gæðum en sjaldnast er bók á þessari grein svo gölluð og slæm að hún nýtist ekki til að ná tökum á frumtextunum. Reyndar er sameiginlegur viðtekinn skilningur á heimspekingum breytilegur eða mismunandi breytilegur. Líklega er fleira í fari hins skoska Humes sem er viðtekið og sátt um heldur en hjá hinum þýska Kant – svo ekki sé minnst á Hegel.

Þegar kemur að heimspekingum allra síðustu áratuga liggja fyrir margar yfirlitsgreinar og bókakaflar – ef ekki heilu bækurnar – sem gera grein fyrir umræðum síðustu áratuga. Þar fara höfundar sem sjálfir taka þátt í umræðunni og hjálpa til við að leiða í ljós samhengi hennar. Menn komast varla upp með miklar afbakanir í slíkum skrifum því slæmar bókarumsagnir draga þegar úr áhuga og vilja til að kaupa rit. Til að mynda er ekki erfitt að fá yfirlit um umræðu í herbúðum greiningarheimspekinnar um hið klassíska vandamál líkama og sálar svo eitt dæmi sé tekið.

Það sem að framan segir á við þá heimspekinga sem verður að telja áhrifamikla. Þegar litið er langt aftur í tímann hefur hefðin og samfellan ákvarðað hverjir hinir áhrifamiklu eða stóru eru. Til skemmri tíma litið teljast þeir áhrifamiklir sem hafa haft sig hvað mest í frammi og aðrir vitnað til. Sumir þeirra eru enn lesnir eftir hálfa til heila öld meðan ýmsir viðmælendur þeirra hafa gleymst.

En snúum okkur að Wittgenstein. Hann er vísast af flestum ef ekki öllum talinn áhrifamikill heimspekingur og jafnvel örlagavaldur. Seint verður hann þó talinn aðgengilegur. Og fyrsta hindrunin í vegi okkar er einmitt sú að hann gaf út eina bók 1921 og nánast ekkert meir. Heimspeki hans er að finna í handritum hans og vélritum. Minnst af öllu þessu efni var tilbúið til prentunar frá hendi höfundarins. Rit Wittgensteins eru þar með bækur sem ritstjórar hafa sett saman og gengið frá. Ávallt er hægt að spyrja hvenær telja má tiltekinn texta vera rit eftir Wittgenstein – og þá hvaða Wittgenstein. Því sumir láta í veðri vaka að það séu margir Wittgensteinar frá einum tíma til annars. Hvað á ég að lesa eftir Wittgenstein? Hvar er best að byrja? Er þetta Wittgenstein eða hann á leiðinni eitthvað annað? Vísast eru Heimspekilegar rannsóknir höfuðverk Wittgensteins. En málið er kannski flóknara. Kannski er hún ekki sjálfstæð í höfundarverkinu og hvað þýðir það þá? Kannski er þetta og hitt sem við erum að lesa bara eitthvað handrit sem Wittgenstein hefði sagt okkur að fleygja í ruslið ef hann sæi til okkar. Að þessu leytinu til er Wittgenstein ekki aðgengilegur – höfundarverkið liggur ekki fyrir fullbúið eða frágengið af honum sjálfum í hendur okkar lesenda. Bláa bókin svokallaða (Wittgenstein, 1998a) sem þýdd hefur verið á íslensku er vísast lykilrit í safninu en hún er minnisvarði um ákveðið þróunarstig og eftir lestur hennar getur maður ekki talið sig hafa náð utan um heimspeki Wittgensteins. Þetta eru líklega allir sammála um. Þetta er svipað vandræðum sem marxistarnir þurfa að glíma við. Marx tókst sjálfum aðeins að gefa út eitt þykkt bindi af Das Kapital. Handritahaugurinn allur sem geymir gagnrýnina á pólitísku hagfræðina er að minnsta kosti tíu bindi!

Þegar höfundarverkið liggur fyrir eins og hjá Wittgenstein og Marx verður það einmitt ólíklegra að viðtekinn skilningur á verkinu í stórum dráttum verði til í fræðasamfélagi og ritskýringar hljóta að leita í ólíkar áttir. Þetta er einmitt eitt af því sem gerir Wittgenstein torræðan. Við erum (eins og síðar verður rætt) háðari forspjallsbókmenntum um Wittgenstein en þegar aðrir heimspekingar eiga í hlut. En heimspeki hans og hvers eðlis höfundarverkið er verður til þess að það er enginn standard til sem sambærilegur er við það sem við eigum að venjast í tilviki annarra heimspekinga. Þetta er til þess meiri vansa þegar það er óumdeilanleg staðreynd að flestir ef ekki allir eiga erfitt með að skilja Wittgenstein með því einu að lesa rit hans án þess að hyggja neitt að forspjallsbókmenntum. Við erum algerlega háð slíkum bókmenntum að minnsta kosti til að byrja með. Þetta þýðir ekki að það sé vita gagnslaust að byrja einfaldlega að lesa í höfundarverki Wkittgensteins eins og það kemur af kúnni. Þetta þýðir að fljótlega reynist erfitt að halda áfram án þess að nýta sér það sem umræðan um Wittgenstein fyrr og síðar hefur skilað.

Samhengi heimspekisögunnar – samræða við liðna heimspekinga

Flestir heimspekingar sem við lærum um í skólum eru aðgengilegir í öðrum skilningi en þeim að höfundarverkið liggi ljóst fyrir og viðteknar og ekki mjög umdeildar forspjallsbókmenntir einnig. Þeir falla inní samhengi heimspekisögunnar – eru eins og kafli í framhaldssögu eða ein kynslóð í ættarsögu. Það er nefnilega samhengi í heimspekisögunni – hún er þáttur í hinni almennu mannkynssögu og menningarsögunni sérstaklega og einn gildur þráður í margvíslegri glímu manna við að skilja heiminn og sjálfa sig. Við eigum sjaldnast erfitt með að átta okkur á hvers vegna viðfangsefni þeirra voru áleitin þegar tekið er tillit til lífs og liðinna heimspekinga sem þeir kölluðust á við. Eitt af því sem gerir heimspeking skiljanlegan er að setja þá í heimspekisögulegt samhengi. Við getum fundið þeim stað eða sett þá á einhvern stað mitt á meðal annarra heimspekinga fyrr og síðar.

Hér erum við í bölvuðum vandræðum þegar Wittgenstein á í hlut. Hvar er hann að finna í samhangandi heimspekisögunni – ef slík saga er þá til? Sagan segir að þekking hans á fræðum heimspekinga fyrr og síðar hafi verið takmörkuð og hann sjálfur virðist hafa gert meira en minna úr þeirri fáfræði. Sum lesning um Wittgenstein ræðir og bendir á ýmsa samtímamenn í Austurríki sem höfðu áhrif á hugmyndir hans. Þar er ekki að finna þráð sem liggur til heimspekisögunnar. Sjálfur kastar hann ryki í augu okkar og lætur eins og hann sé að tala við sjálfan sig. Í Heimspekilegum rannsóknum er hann að eigin sögn að laga meinbugi í Tractatus og leggur þaðan uppí næsta leiðangur.

Auðvitað erum við ekki að setja Wittgenstein í heimspekisögulegt samhengi með því að láta eins og Heimspekilegar rannsóknir kallist bara á við Tractatus. En bíðum við. Ef til vill er eitthvað vit í því að segja sem svo að heimspekilegt samhengi Wittgensteins sé hann sjálfur frá einu æviskeiði til annars. Það vill svo til nefnilega að röklegu positivistarnir skildu Tractatus sem undirstöðurit og kannski upphafspunkt fræða sinna. Vísindahyggja vill loða við positivismann ef hún er þá ekki innbyggð í hann. Systir vísindahyggjunnar er tæknihyggjan. Og þessar systur búa til tvíradda kór líf- og sálarvana framfarahyggju. Ef til vill verður Wittgenstein aðgengilegri með því að sjá hann í því ljósi að heimspeki hans sé uppreisn gegn þessari óværu. Um þetta má þrefa svo mikið að vísast verður hann ekkert aðgengilegri fyrir vikið. En hvað sem því líður….. Líkast til er heimspeki Wittgensteins á einhvern hátt svar við þróun greiningarheimspekinnar í átt að positivisma og vísindahyggju.

Samræðan við samfélagið og söguna

Nú má samhengi heimspekingsins vera stærra og víðara en heimspekisagan og liðnir og lifandi heimspekingar. Heimspekingarnir lifa og starfa í samfélagi sem kemur einhvers staðar frá og er á leiðinni eitthvað með öllum sínum vandamálum og togstreitu. Við getum sagt að heimspekingur kallist ekki aðeins á við aðra heimspekinga lífs og liðna heldur kallast hann einnig á við samfélagið og söguna.

Stundum er heimspekin beint og milliliðalaust svar við vandamálum samfélagsins – svar við ákalli um lausn á mótsögnum og misræmi í samfélaginu. Það er til dæmis ekki vinnandi vegur að botna neitt í klassísku þýsku hughyggjunni (Kant, Fichte, Hegel) nema taka tillit til Upplýsingarinnar og sögulegum straumhvörfum frönsku byltingarinnar. Stundum eru þessi tengsl ekki þráðbein heldur má skilja hugmyndir heimspekingsins í ljósi samfélagsbreytinga eða -vandamála. En svo er það líka einu sinni þannig að hver heimspekingur mótast af því samfélagi sem elur hann.

Er það bara tilviljun sem kemur heimspeki Wittgensteins ekkert við að hann mótaðist af hörmungum heimsyrjaldarinnar fyrri? Er það tilviljun að hann ólst upp í Austurríki? Er það tilviljun að vísindahyggja og tæknihyggja voru nánast trúarbrögð í menntalífinu á hans tíð? Og þegar ég nota tilviljun í þessu samhengi er ég að spyrja hvort heimspeki hans sé með öllu óviðkomandi og ótengd þessum umhverfisþáttum. Með öðrum orðum að heimspeki hans gæti verið sú sama þó Wittgenstein hefði verið annars staðar á öðrum tíma. Er til dæmis hugsanlegt að prestssonur á Jótlandi af sömu kynslóð hefði getað skrifað slík verk sem hann? Voru það eingöngu hugmyndir Gotlob Frege og Bertrand Russells sem vöktu heimspekinginn upp í Wittgenstein og framhaldið er hugmyndasaga einstaklings í lausu lofti?

Samræðan við vísindin og lifandi heimspekinga

Þegar við reynum að átta okkur á heimspekingum er hægt að skipta þeim gróflega í tvo flokka sem með fyrirvara rímar við skiptinguna í greiningarheimspeki (analytic philosophy) og meginlandsheimspeki (continental philosophy). Auðvitað verður þessi skipting merkingarlítil jafnskjótt og kafað er dýpra en þó er flugufótur fyrir henni. Þeir sem kallaðir eru meginlandsheimspekingar kallast milliliðalaust á við samfélagið og söguna. Þeir fjalla um manninn og eðli hans, samfélagið og stöðu einstaklingsins frammi fyrir því og gerendur sögunnar. Þessir heimspekingar hafa sömu áhugamál og stjórnmálamenn af öllu tagi, uppalendur í víðustu merkingu allt frá kennurum til listamanna. Greiningarheimspekingarnir gáfu ekki mikið fyrir slíka heimspeki – ef þeir töldu þetta yfirhöfuð vera heimspeki. Þeir kölluðust fremur á við vísindin og þekkinguna. Þeir hafa sömu áhugamál og vísindamenn eða þeir sem afla þekkingar og koma henni til skila.

Vísast getum við litið á hinn unga Wittgenstein sem skrifaði Tractatus sem greiningarheimspeking. Hann er að greina á milli fullyrðinga sem hafa merkingu og eiga heima í vísindunum og þeirra sem hafa ekki merkingu og teljast frumspekilegar. Þegar kemur að Wittgenstein eldra birtist okkur hinn siðmenntaði Austurríkismaður sem áttaði sig á takmörkunum vísinda og meinsemd vísindahyggjunnar og velti ekki lengur fyrir sér í rauninni hvað væri hægt að segja og hvað ekki svo merkingu hefði – heldur hvenær væri yfirleitt eitthvað vit er í því sem við segjum og höldum fram. Sem er allt annar handleggur. Í þessum punkti fara fyrirbærafræðingar á meginlandinu að kannast við kauða á meðan Russell eins og frægt er sagði því sem næst að Wittgenstein hefði hætt að stunda heimspeki. Þessi mynd af Wittgenstein er þó gölluð. Höfundur Tractatus getur varla talist vísindahyggjumaður þegar haft er í huga að hann taldi einmitt að vísindin hefðu ekkert fram að færa um það sem mestu máli skipti – hið góða og fagra í lífinu og tilverunni.

Sérstök heimspeki í hljóðeinangruðum klefa

Þegar höfundarverk Wittgensteins er haugur af ófullbúnum handritum, engar viðteknar ritskýringar til sem myndast hefur nokkur sátt um með sífelldri samræðu; þegar erfitt er að koma honum fyrir í samhengi heimspekisögunnar og lýsa hann upp með þeim samfélagsveruleika sem hann hlaut að bregðast við á einhvern hátt… þá hlýtur hann að vera torlesinn. Getur ekki verið annað.

Eins og þetta sé ekki nóg þá getur það valdið okkur töluverðum erfiðleikum að heimspeki Wittgensteins er engri annarri heimspeki lík. Heimspeki Wittgensteins gengur í berhögg við allan hefðbundinn skilning á heimspeki. Á þetta bæði við hver verkefni heimspekinnar eru, hver hin heimspekilegu vandamál eru og í hverju þau felast og hvernig beri að leysa þau.

Wittgenstein stóð einn í sínu heimspekilega stríði – hann var ekki í aðstöðu til, gat ekki eða fékk sig ekki til að kallast á við aðra heimspekinga í heyranda hljóði sem voru honum samtíða. Þetta er til því meiri vandræða þar sem Wittgenstein kallaðist heldur ekki á við heimspekinga sögunnar á hinu sjáanlega yfirborði textans. Wittgenstein hafði ekki áhuga á heimspekikerfum og klassískri umræðu um hinar sígildu umdeilanlegu stóru spurningar heldur grunnforsendunum sem allir deiluaðilar áttu sameiginlegar.

Þetta síðasta og reyndar allt sem áður er talið veldur því að Wittgenstein lítur út við fyrstu kynni eins og heimspekingur – og kannski varla heimspekingur – sem er utan við samhengi eða til hliðar við samfellu sögunnar aleinn í sínum hljóðeinangraða klefa sem hann hannaði og smíðaði sjálfur. Nú getum við spurt: Er hægt að skilja slíkan mann? Spurningin minnir auðvitað á ábendingu Wittgensteins sjálfs þegar hann spyr okkur hvort við mundum skilja ljón ef það gæti talað?

Hin afbrigðilega framsetning

Wittgenstein bítur svo höfuðið af skömminni með því að leggja fyrir okkur enn eina hindrunina sem er hin afbrigðilegi stíll framsetningar sem hann tamdi sér og nokkur áreynsla er að sætta sig við og fylgja. Skrif hans eru í formi stuttra athugasemda og jafnvel spakmæla. Stundum virðast þessar athugasemdir ekki tengjast og svífa í loftinu samhengislausar eða manni sýnist þeim kastað fram af handahófi. Oft eru þessar athugasemdirnar eins og brot úr samræðu. Þetta væri ekki til trafala ef annað kemur ekki til. Lesandanum finnst nefnilega stundum að honum sé kastað inn í miðjar samræður og á fullt í fangi með að átta sig á um hvað þær snúast. Ekki nóg með það….. stundum er lesandanum ekki ljóst þegar í stað hvenær Wittgenstein er að tala og hvenær viðmælandi hans.

Þegar þannig er háttað (auk alls sem rætt er að framan) þarf að treysta meir en góðu hófi gegnir á ritskýringar atvinnumanna. En þar rötum við líka í vandræði sem rekja má til ósamkomulags þeirra á milli og stundum meinlegs misskilnings sem gætir hér og þar í velmeintu forspjalli um Wittgenstein. Ja, margar eru áhyggjur vorar! Það má nú segja!

Af forspjallsritum og ritskýringum

Þetta þýðir auðvitað eins og ég hef ítrekað að við erum býsna háð þeim sem hafa kannað rit Wittgensteins í þaula. Það kæmi ekki að sök ef við mætum þá ekki annarri hindrun. Fræðimenn (eða eigum við kannski að kalla þá atvinnumenn?) í heimspeki eru mjög ósammála um hvernig beri að skilja Wittgenstein bæði í einstökum atriðum og almennt. Það sem verra er. Þessar breytilegu túlkunaratriði fara gjarnan framhjá ókunnugum eða virðast þýðingarlitlar ef tekið er eftir þeim.

Ekki er nóg með að fræðimenn séu ósammála um hvernig skilja beri Wittgenstein í stórum dráttum og einnig hér og þar í ritum hans. Hér rífast menn eins og þeir eigi lífið að leysa og engu líkara á stundum en barist sé um tilkallið til hins heilaga kaleiks. Áhrif hans voru einnig tiltölulega skammvinn í rökgreiningarheimspekinni. Þetta ásamt öllu því sem þegar er sagt þýðir að ekki hefur myndast eins konar korpus úr hans eigin ritum og ritskýringatextum sem eru nógu samhljóma til að unnt sé með góðu móti að ná gripi utan um framlag hans. Og ég held áfram endurtekningum: Öðru máli gegnir um flesta stóru heimspekingana – enda hafa menn tuggið rit þeirra og síðan jórtrað á þeim í ritskýringaritum áratugum og öldum saman. Auðvelt er í þeim tilvikum að finna sómasamleg yfirlitsrit sem eru svo nærri lagi að lesandinn er sæmilega áttaður þegar kemur að frumritunum. Þannig kynnumst við Descartes, Locke, Hume, Kant og fleiri stórmennum heimspekisögunnar. Því miður er þessu ekki að heilsa þegar Wittgenstein á í hlut.

Líkast til er heppilegasta leiðin að heimspekingi að lesa eina eða tvær aðgengilegar yfirlitsgreinar – þó sjaldnast hjá Wikipedia. Ein sú allra besta er greinin um Wittgenstein eftir Peter Hacker í ritsafni Martinich og Sosa A Companion to Analytic Philosphy sem út kom hjá Blackwell 2001 (Hacker, 2001). Þarna hleypur Hacker um víðan völl eins og ætlast er til. Til er önnur ritgerð frá hans hendi sem ætti sérstaklega að höfða til sálfræðinga sem eru leitandi á miðum hugarheimspekinnar eða fræðilegrar sálfræði. Phönix-forlagið í London gaf út ritröðina The Great Philosophers fyrir nokkuð mörgum árum. Þetta eru bæklingar í vasabroti (bókstaflega) um það bil fimmtíu blaðsíður hver. Í þessari ritröð skrifar Hacker (1997) um Wittgenstein (Wittgensteinn on Human Nature heitir bæklingurinn. Millifyrirsagnirnar gefa nokkra hugmynd um innihaldið: 1) Inngangur, 2) Skilningur Wittgensteins á heimspeki, 3) Hugur, líkami og hegðun: Máttur heimspekilegrar tálsýnar, 4) Einkaeign á reynslu, 5) Þekkingarlegur einkaheimur (privacy), 6) Lýsingar og tjáning, 7) Innistöður og útistöður: Þekking á öðrum, 8) Hugar, kroppar og hegðun, 9) Geta vélar hugsað?

Nú eru ævisögur heimspekinga og annarra fræðimanna góðar til síns brúks þó þær fræði mann sjaldnast ítarlega um kenningar þeirra og hugmyndir. Sumir vilja þó fyrr en seinna lesa a.m.k. eina ævisögu. Reaktion Books í London hefur gefið út merkilega ritröð undir yfirskriftinni Critical Lives og skrifar Edward Kanterian bókin um Wittgenstein. Þessi bók geymir býsna góða frásögn á tvöhundruð blaðsíðum af lífi Wittgensteins sem er aðalefnið með hæfilegum fræðilegum smáskömmtum (Kanterian, 2007). Ítarlegasta ævisagan sem er í boði er aftur á móti Ludwig Wittgenstein, The Duty of Genious eftir Ray Monk. Þessi bók er mikill doðrantur og telur meir en sexhundruð blaðsíður (Monk, 1991).

Ævisögur gera sitt til að setja hugmyndir heimspekinga í eitthvert samhengi og gera þær stundum skiljanlegri. Sömu sögu er að segja um forspjallsrit og ritskýringar sem staðsetja heimspekinginn meðal annarra heimspekinga. Stundum viljum við þó forvitnast um enn víðara samhengi. Hin merka bók Allan Janik og Stephen Toulmin Wittgenstein‘s Vienna frá 1973 er hvorki ævisaga né greinagerð um heimspeki Wittgensteins heldur bók sem gerir grein fyrir hinum sögulega, samfélagslega og menningarlega jarðvegi sem Wittgenstein spratt úr – Austurríska keisaradæminu og Vínarborg í upphafi tuttugustu aldarinnar (Janik & Toulmin, 1996).

Þá erum við komin að yfirlits- eða inngangsritum. Bókaforlögin stóru gefa út bækur um heimspekinga og aðra hugsuði sem margar hverjar eru ágætar. Sumar eru aðeins einu númeri stærri en bæklingur en aðrar eru ívið efnismeiri en þó ekki doðrantar. Mér sýnist að slíkar bækur um Wittgenstein sem skrifaðar eru fyrir útgáfu ritraða hjá forleggjurum ekki heppilegar. Þær eru nefnilega skrifaðar eftir pöntun. Nær er að hyggja að bókum sem höfundar hafa skrifað að líkindum vegna ástríðunnar. Þar sýnist mér fjórir höfundar hafa skilað af sér býsna góðum bókum til yfirlits og forspjalls. Hafa þeir allir nokkra verðleika sem þar liggja að baki. Anthony Kenny er einn af gæslumönnum handritaarfs Wittgensteins og hefur skrifað merkilegar bækur. Hann skrifaði forspjallsbók um Wittgenstein og gaf út 1973 og mikið endurskoðaða 2006 sem heitir einfaldlega Wittgenstein (Kenny, 2006). Heimspekingarnir tveir sem ritstýrðu fjórðu endurskoðuðu útgáfu Heimspekilegra rannsókna 2009 hafa báðir skrifað yfirlits- eða forspjallsrit um Wittgenstein í einni bók. Joachim Schulte gaf út Wittgenstein, An Introduction í enskri þýðingu 1992 (Schulte, 1992). Peter M. S. Hacker gaf út bók 1989 og mikið endurskoðaða 1997 sem heitir Insight and Illusion, Themes in the Philosophy of Wittgenstein (Hacker, 2021). Fyrrnefnda bókin er ágætt forspjallsrit á meðan sú síðarnefnda eftir Hacker er öllu viðameiri og líklega ekki hentug byrjendum. Ótalið er forspjallsrit sem líklega er allra besti inngangurinn að heimspeki Wittgensteins. Hér á ég við Wittgenstein, The Way Out of the Fly-Bottle eftir Severin Schroeder (2006). Allar þessar bækur eru vísast álíka gagnlegar sem yfirlitsrit um Ludwig Wittgenstein og höfundarverk hans. Meðmæli með einni umfram aðrar byggjast þá fremur á smekk en málefnalegum rökum.

Kennslu í heimspeki hefur fleygt fram á mörgum sviðum síðustu áratugina – burt séð frá öllu því sem segja má um villuráf heimspekinnar. Ein birtingarmynd þessara framfara eru bækur helgaðar stóru áhrifavöldunum í heimspekisögunni sem eru eins konar orðabækur. Í þessum bókum eru lykilhugtök skýrð ásamt fleiri efnisþáttum sem nauðsynlegir eru til að skilja höfundinn og hugmyndaheim hans. Út hafa komið bækur af þessu tagi hjá nokkrum stóru forlaganna sem gefa út akademískar bókmenntir. Blackwell-forlagið gaf út A Wittgenstein Dictionary eftir Hans-Johann Glock og hefur hún reynst býsna notadrjúg (Glock, 1996).

Að þessari kjölfræði lokinni verður fátt meira sagt um forspjallsbókmenntir um Ludwig Wittgenstein. Enn er fólk að skrifa greinar í tímarit sem tengjast eða fjalla um Wittgenstein á einn eða annan hátt. Fjöldi ritsafna hafa komið út um hann bæði almenns eðlis og um sérhæfðari viðfangsefni. Ekki þreytast höfundar á að senda frá sér heilu bækurnar um Wittgenstein frá margvíslegum hliðum. Hér verður þó ekki bent á neitt sérstakt úr heimi þessara bókmennta.

Að lokum verður þó ekki hjá því komist að vekja athygli gríðarlegu þrekvirki á sviði ritskýringa í Wittgenstein-fræðum. Hér er auðvitað um að ræða hinar miklu bækur eftir Gordon Baker og Peter Hacker sem þeir hófu að skrifa 1976. Fyrsta bókin kom út 1983 í ritröð undir yfirskriftinni An Analytical Commentary on the Philosophical Investigations. Þetta eru fjórar bækur og þrjár þeirra eru í tveimur bindum hver sem þýðir að hér er um að ræða hvorki meira né minna en sjö bindi nokkuð stór um Heimspekilegar Rannsóknir Wittgensteins. Hver bók er í tveimur hlutum – annars vegar ritgerðir um aðgreind þemu og hins vegar ritskýringar. Þeir félagar héldu samstarfi til 1987. Skildu þá leiðir. Margvíslegar nýjar upplýsingar komu fram sem kröfðust endurskoðunar auk þess sem vinnan við bókarskrifin leiddu með tímanum til skýrari og betri skilnings. Því hefur Hacker endurskoðað þetta verk og endurskrifað og verður líklega að telja hann aðalhöfund þess.

Nú virðast sjö doðrantar um eina bók Wittgensteins heldur mikið af því góða. Rétt eins og ókleift fjall. Margar spurningar vakna auðvitað: Er Wittgenstein virkilega svo torræður að skrifa þurfi þrjú til fjögur þúsund blaðsíður um þessa einu bók? Kemst ég ekki til botns í þessu nema lesa sjö þykkar bækur? Ég held að svarið við báðum spurningunum sé neitandi – nema maður ætli sér auðvitað að gerast atvinnumaður í heimspeki. Aftur á móti liggur það alveg ljóst fyrir að ritgerðirnar í þessum bókum eru ómissandi sé ætlunin að ná virkilegum skilningstökum á höfundarverki Wittgensteins. Þegar forspjallsbókum sleppir taka þessar bækur Hackers við á hinu æðra stigi skilningsleitar á vegum Ludwig Wittgensteins. (Baker & Hacker, 2009a, 2009b, 2014; Hacker, 2000a, 2000b, 2019a, 2019b)

Athugasemdir

[1] 6. ágúst 2021

[2] „I myself still find may way of philosophizing new, & it keeps striking me so afresh, & that is why I have to repeat myself so often. It will have become part of the flesh & blood of a new generation & it will find the repetitions boring. For mee they are necessary. – This method consists essentially in leaving the question of truth and asking about sense instead.“ CV, 3. Það er vani að skammstafa rit Wittgensteins eins og hér er gert; CV stendur fyrir Culture and Value (Wittgenstein, 1998b)

[3] Hefði ég ekki asnast til að hætta námi og dvalið lengur í Lundi hefði ég vísast kynnst Wittgenstein fyrir milligöngu Joachims Israel sem þar var prófessor. Ég valdi meira að segja þennan skóla hans vegna þar sem ég hafði lesið mikið rit hans um firringu. Á þessum tíma var hann einmitt að bauka við að finna félagsfræðinni og félagssálfræðinni fótfestu og áhrifin frá Wittgenstein í því streði augljós.

[4] „Against prevailing tradition, Wittgenstein challenged the inner/outer picture of the mind, the conception of the mental as a „world“ accessible to its subject by introspection, the conception of introspection as inner perception, the idea that the capacity to say how things are with us „inwardly“ is a form of knowledge (let alone a paradigm of self-knowledge), the thought that human behaviour is „bare bodily movement“, the notion that voluntary action is bodily movement caused by acts of will, the supposition that explanation of human behaviour in terms of reasons and motives is causal, and the pervasive influence of the Augustinian picture of language that disposes one to think that psychological expressions are uniformily or even typically names of inner objects, events, processes, or states. His philosophy of mind and action can be seen as providing a rigorous philosophical underpinning for the hermeneutic insistence on the autonomy of humanistic understanding and its categorical differentiation from understanding in the natural sciences.“

Heimildalisti

Aspelin, G. (1958/1977). Tankens vägar. En översikt av filosofiens utveckling (Vol. I-II). Lund: Bokförlaget Doxa.

Baker, G. P., & Hacker, P. M. S. (2009a). Wittgenstein: Understanding and Meaning, Volume 1 of An Analytical Commentary on the Philosophical Investigations, Part I, Essays. Oxford: Blackwell.

Baker, G. P., & Hacker, P. M. S. (2009b). Wittgenstein: Understanding and Meaning, Volume 1 of An Analytical Commentary on the Philosophical Investigations, Part I, Exegesis 1-184. Oxford: Blackwell.

Baker, G. P., & Hacker, P. M. S. (2014). Wittgenstein: Rules, Grammar and Necessity, Volume 2 of An Analytical Commentary on the Philosophical Investigations, Essays and Exegesis of 185-242. Oxford: Blackwell.

Bennett, M. R., & Hacker, P. M. S. (2003). Philosophical foundations of neuroscience. Oxford: Blackwell.

Cornforth, M. (1950). In Defence of Philosophy, Against Positivism and Pragmatism. London: Lawrence & Wishart.

Glock, H.-J. (1996). A Wittgenstein Dictionary. Oxford: Blackwell.

Hacker, P. M. S. (1997). Wittgenstein on human nature. London: Orion/Phoenix.

Hacker, P. M. S. (2000a). Wittgenstein: Mind and Will, Volume 4 of An Analytical Commentary on the Philosophical Investigations, Part I, Essays. Oxford: Blackwell.

Hacker, P. M. S. (2000b). Wittgenstein: Mind and Will, Volume 4 of An Analytical Commentary on the Philosophical Investigations, Part II, Exegesis 428-693. Oxford: Blackwell.

Hacker, P. M. S. (2001). Ludwig Wittgenstein (1889-1951). In A. P. Martinich & D. Sosa (Eds.), A Companion to Analytic Philosophy (pp. 68-93). Oxford: Blackwell.

Hacker, P. M. S. (2004). The conceptual framework for the investigation of emotions. International Review of Psychiatry, 16(3), 199-208. doi:10.1080/09540260400003883

Hacker, P. M. S. (2019a). Wittgenstein: Meaning and Mind, Volume 3 of An Analytical Commentary on the Philosophical Investigations, Part I, Essays. Oxford: Blackwell.

Hacker, P. M. S. (2019b). Wittgenstein: Meaning and Mind, Volume 3 of An Analytical Commentary on the Philosophical Investigations, Part II, Exegesis 243-427. Oxford: Blackwell.

Hacker, P. M. S. (2021). Insight and Illusion. Themes in the Philosophy of Wittgenstein (3. ed.). London: Anthem Press.

Janik, A., & Toulmin, S. (1996). Wittgenstein’s Vienna. Chicago: Elephant Paperebacks.

Johansson, I., Kalleberg, R., & Liedman, S.-E. (1976). Positivism, marxism, kritisk teori. Stockholm: Bokförlaget Pan/Nordstedts.

Kanterian, E. (2007). Ludwig Wittgenstein. London: Reaktion Books.

Kenny, A. (2006). Wittgenstein. (revised edition). Oxford: Blaackwell.

Monk, R. (1991). Ludwig Wittgenstein. The Duty of Genius. London: Vintage Books.

Schroeder, S. (2006). Wittgenstein. The Way Out of the Fly-Bottle. Cambridge: Polity Press.

Schulte, J. (1992). Wittgenstein. An Introduction. New York: State University of New York Press.

Smedslund, J. (1997). The Structure of Psychology of Common Sense. London: Lawrence Erlbaum Associates.

Wittgenstein, L. (1998a). Bláa bókin (Þ. Þórsson, Trans.). Reykjavík: Hið Íslenzka Bókmenntafélag.

Wittgenstein, L. (1998b). Culture and Value. A Selection from the Posthumous Remains. Oxford: Blackwell.

Wittgenstein, L. (2001). Tractatus Logico-Philosophicus. London: Routledge.

Wittgenstein, L. (2021). Rannsóknir í heimspeki (J. Hauksson, Trans.). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Þorsteinn Gylfason (1970). Tilraun um manninn. Reykjavík: Almenna bókafélagið.